Af hverju að gera þetta?
Of margir stjórnendur setja óljós markmið – t.d. að bæta varðveislu viðskiptavina (e. customer retention) – sem gerir að verkum að teymi þeirra eru óviss um hversu vel þeim gengur eða jafnvel að hverju þau eru að vinna. Einföld formúla, úr The 4 Disciplines of Execution frá FranklinCovey, veitir þér öfluga leið til að koma auga á „hvar þú ert í dag, hvert þú vilt fara og frestinn til að ná því markmiði“. Þó hvert einasta markmið falli ekki fullkomlega að þessari formúlu getur notkun hennar hjálpað þér og teymi þínu að tala um markmið með hætti sem er skilmerkilegur, mælanlegur og auðveldur að skilja og tjá.
Hvernig skal gera þetta:
1. Veldu eitt af markmiðum teymis þíns til að betrumbæta.
Þú kannt að ákveða að betrumbæta markmið vegna þess að það er í miklum forgangi hjá teyminu eða þú telur að markmiðið skorti vel skilgreinda niðurstöðu. Það kann auk þess að vera ráðlegt að spyrja liðsmennina hvaða markmið þeir vilja gera skýrara. Þú gætir einnig notað þessa formúlu strax í byrjun þegar þú velur og mótar markmið með teyminu.
2. Breyttu orðalagi markmiðsins þannig að það sé „X í Y fyrir Hvenær.“
Ef þú kemst að því að markmiðið sem þú valdir fellur ekki að þessari uppbyggingu (e.t.v. vegna þess að það er markmið sem felur í sér að kanna eitthvað óþekkt), íhugaðu þá a.m.k. að bæta við einhverjum vel skilgreindum upplýsingum og „fyrir Hvenær“ til að tímasetja markmiðið. T.d.:
- Óljóst markmið: Bæta varðveislu viðskiptavina.
- Betrumbætt markmið: Úr 65 prósenta varðveislu viðskiptavina í 75 prósent fyrir lok þessa fjórðungs.
- Óljóst markmið: Prófa sölunálganir á nýja markaðnum til að komast að því hvaða nálgun mögulegir viðskiptavinir bregðast mest við fyrir lok þessa árs.
- Betrumbætt markmið: Prófa þrjár sölunálganir á nýja markaðnum til að komast að því hvaða nálgun mögulegir viðskiptavinir bregðast mest við fyrir lok þessa árs.
3. Leitaðu eftir upplýsingum frá teyminu um „X í Y fyrir Hvenær“-markmiðið.
Að teknu tilliti til þinna aðstæðna, gætirðu kynnt fyrir teymi þínu „X í Y fyrir Hvenær“-markmiðslýsinguna til að fá endurgjöf eða þið gætuð lagt drög að lýsingunni í sameiningu. Burtséð frá þessu er framlag teymisins mikilvægt til að það helgi sig markmiðinu og til að tryggja að þú sért að setja gott, krefjandi markmið sem jafnframt er mögulegt að ná. Þegar þú ræðir markmiðið kanntu að spyrja um eftirfarandi:
„Hversu raunhæf er niðurstaðan að teknu tilliti til þess hvar við erum núna og hversu langan tíma við höfum?“ „Getum við gert þessa lýsingu jafnvel skýrari, með því að einfalda hana eða nota skilmerkilegra orðalag?“
„Gæti verið fyrir hendi einhver misskilningur um það sem við erum raunverulega að reyna að gera?“ „Hvernig, ef að einhverju leyti, myndi það að skerpa á orðalagi markmiðsins breyta nálgun okkar?“
4. Notaðu lokaorðalag lýsingarinnar þegar þú ræðir markmiðið.
Það er öruggt að þú og teymið munuð þurfa að leggja í meiri vinnu til að komast að því hver verður heildarnálgun ykkar við að ná markmiðinu: Hvernig komist þið úr 65 prósentum í 75 prósent? Hvernig munuð þið ákvarða hvaða sölunálganir ætti að reyna? En „X í Y fyrir Hvenær“- lýsing ykkar getur þjónað sem hvetjandi leið til að fanga markmiðið – auðveldlega má deila lýsingunni og endurtaka hana alls staðar á vinnustaðnum og það er auðvelt að skrifa hana á töflu eða mælaborð teymis til að athuga hvernig gengur að ná markmiðinu.