Haustráðstefna Stjórnvísi 2019. Er TRAUST mikilvægasti gjaldmiðill fyrirtækja?
Haustráðstefna Stjórnvísi verður haldin á Grand Hótel, Gullteigi þann 10.október kl. 09:00-11:00.
Þema ráðstefnunnar: Er TRAUST mikilvægasti gjaldmiðill fyrirtækja? Aðgangur er frír.
Ráðstefnustjóri: Guðfinna S. Bjarnadóttir, LEAD consulting – fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík.
Fyrirlesarar: Steinunn Ketilsdóttir, Intellecta – ráðgjafi í stafrænni fræðslu og Antoine Merour frumkvöðull, stofnandi Business Landscape og fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnumótunar Riot Games í Evrópu sem er eitt stærsta tölvuleikjafyrirtæki í heimi.
Dagskráin hefst með morgunverðarhlaðborði kl. 8:30. Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Stjórnvísi setur ráðstefnuna kl. 09:00. Því næst munu fyrirlesarar flytja erindi. Stuttar vinnustofur verða á eftir hvoru erindi þar sem tækifæri gefst að ræða saman og kynnast öðrum félögum.
Verið öll hjartanlega velkomin.
Ráðstefnunni verður streymt af facebooksíðu Stjórnvísi.
Peningur er gjaldmiðill í viðskiptum og segja má að traust sé ósýnilegur gjaldmiðill í samskiptum. Mikilvægi trausts er ekki nýtt af nálinni heldur hvernig fyrirtæki ávinna sér traust og glata því. Rætt verður um traust fyrirtækja út frá viðskiptavinum og starfsmönnum í núverandi breytingum og hvaða áhrif það getur haft á framtíð okkar og fyrirtækja.
Viðskiptavinir eru mikið nær fyrirtækjum í dag og hafa mun meira um það að segja hvaða traust fyrirtæki hafa í dag í gegnum samfélagsmiðla en var fyrir um áratug síðan. Vaxandi vantraust viðskiptavina á heimsvísu er áhyggjuefni og getur hamlað nýsköpun í fjórðu iðnbyltingunni. Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnenda í dag er hvernig þau eiga að vinna að því að viðhalda og ávinna sér traust í þeim breytingum sem eru framundan.
Traust er ósýnilegur gjaldmiðill sem nærir árangursrík fyrirtæki. Það dregur úr núningi, flýtir fyrir ákvarðanatöku, opnar fyrir nýsköpun og hvetur til hámarks þátttöku starfsmanna. Við munum styðjast við nokkur dæmi um fyrirtæki sem settu traust sem kjarna í sínu viðskiptamódeli til að fá innblástur. Ræða síðan hvernig leiðtogar geta fyllt fyrirtæki af eldmóði með því að veðja á traust frekar en stjórnun.